Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Heimspeki

Staðgöngumæðrun: ný tegund frjálsræðis hjá áttavilltri þjóð eða mannréttindi?

Nokkrir ævintýramenn á Alþingi vinna nú að því að leyfa staðgöngumæðrun. Þetta er gert fyrir þrýsting frá nokkrum einstaklingum sem hafa fengið með sér kven- og fæðingarlækna sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.

Mín skoðun er sú að ef staðgöngumæðrun verður leyfð á Íslandi muni íslenska þjóðfélagið hægt og rólega breytast í grundvallaratriðum. Hvers vegna? Vegna þess að hún er svo óskaplega róttæk í eðli sínu.

Látið er að því liggja að um sé að ræða góðverk sem nokkrir einstaklingar munu koma að á hverju ári. Ég held þetta muni leiða af sér ófyrirsjáanlegar breytingar á hugsun okkar allra um barneignir, meðgöngur, fjölskyldulíf, barnauppeldi. Þetta eru grunngildi sem menn eiga ekki að vera að róta í finnst mér vegna þess að vitum ekki hvaða afleiðingar það hefur. Það munu koma sífellt nýjar kröfur um hverjum mun leyfilegt að nýta sér þessi úrræði og ég fullyrði að við munum komast í ógöngur.

Það er einnig ætlunin að breyta lagalegri skilgreiningu á móðurhlutverkinu, enda er nauðsynlegt að breyta barnalögum ef þetta nær fram að ganga. Í stað hefðbundin skilnings, að móðir sé sú kona sem elur barn verður hugtakið útvíkkað og sagt að það sé einnig sú sem fær aðra konu til að ganga með barn og á erfðaefnið. Og takið nú eftir: Sú sem elur barnið (staðgöngumóðirin) skal þá ekki teljast móðir þess [að skilningi barnalaga.] Þetta þykir rétt að gera svo staðgöngumóðirin geti ekki krafist barnsins að lokinni meðgöngu.

Er þetta óskapnaður? Ég bara spyr.

Nú er í nýlega framlagðri tillögu á nokkurra alþingismanna talað um að leyfa hana með ströngum skilyrðum og aðeins  í velgjörðarskyni.

1. Mig langar fyrst að tala um ströng skilyrði:

Ég held að það sé ógerningur að gera upp á milli kvenna og t.d. að leyfa konu sem ekki getur átt barn vegna legmissis að leigja staðgöngumóður en ekki til dæmis konu sem lenti í öðrum óskyldum sjúkdómi segjum alvarlegum giktsjúkdómi, áunninni sykursýki eða bara þröngri grind og getur þess vegna ekki átt barn á meðan hún er frjósöm. Hún áttar sig á þessu ( kannski eftir margar tilraunir til að eignast barn) og mun krefjast réttar síns og á vitaskuld alveg sama rétt eins og konan sem ég nefndi áður. Og hvað með einstæða karlmenn eða eldri pör og aðra sem hafa sterkar en eðlilegar óskir, ég sé langan lista. Það gengur ekki að mismuna fólki á þennan hátt og ég held að það muni ekki standast jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Af þessari ástæðu er ég algjörlega andvígur því að leyfa staðgöngumæðrun því annað hvort þarf að leyfa þetta fyrir alla - eða engan.

2. Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni:

Í tillögu alþingis er sagt: „Hugtakið staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni felur í sér að ekki sé greitt fyrir aðstoðina sem veitt er. Þrátt fyrir það er eðlilegt að greitt sé fyrir sanngjarnan aukakostnað, svo sem lækniskostnað sem fellur á þungaða konu auk annars kostnaðar (lesist lögfræðikostnaðar, mitt innskot) sem tengist meðgöngu, eða mögulegt vinnutap staðgöngumóður sem skerðir fjárhag hennar."

Hvað felur þetta í sér? Allur læknis- og lögmannskostnaður er greiddur ( erlendis er það oft uþb.helmingur kostnaðar) og að auki fjárhæð sem nemur þeirri sem konan fengi ef hún er í venjulegri vinnu og hættir henni t.d. vegna meðgöngu fyrir aðra. Svo bætist við fæðingarorlof.

Það hlýtur hver maður að sjá að sé þetta leyft er þegar kominn upp atvinnuvegur. Fyrir mér er þessi velgjörðartitill algjör blekking. Þetta mun þróast yfir í það að settur verður verðmiði á þessa þjónustu enda er það reynsla allra þeirra þjóða sem leyfa þetta. 

Þetta er því önnur ástæða ( á meðal ótal margra annarra ) fyrir því að ég er mótfallinn tillögu ævintýragjarnra alþingismanna um staðgöngumæðrun. 


Staðgöngumæðrun - hvað á að leyfa og hvað á að banna.

Fyrir fimm árum síðan var gefin út bók sem vakti mikla athygli. Hún fjallar um það hvernig smám saman hefur orðið til iðnaður og markaður tengdur honum til að geta börn, ganga með börn fyrir aðra, selja sæði, egg og sem afleiðing af því nánast hanna börn eins og við helst viljum hafa þau.

Bókin ber nafnið THE BABY BUSINESS og var gefin út af Harvard útgáfunni Höfundi hennar Debora L. Spar þykir hafa tekist vel upp á hlutlausan og greinargóðan hátt að varpa ljósi á starfsemi sem er óðum að verða að alþjóðaviðskiptum sem tengast tæknifrjóvgun, ættleiðingum og ekki minnst staðgöngumæðrun. Nú þurfum við Íslendingar að fara að kynna okkur þetta.

 

Ég vil beina ahyglinni sérlega að staðgöngumæðrun, sem svo hefur verið nefnd. Staðgöngumæðrun er bönnuð á Íslandi. Það hefur einhverra hluta vegna ekki þótt eðlilegt að kona gangi með barn fyrir aðra í greiðaskini eða fyrir peninga. 

Nú er kominn nýr flötur á málið hér á Íslandi. Komin er fram tillaga til þingsályktunar sem lögð var fyrir alþingi þann 30. nóv. síðastliðinn.

Tillagan leggur til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem undirbúi frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun á Íslandi.  Tillagan tekur til nokkur atriði sem starfshópurinn skal taka mið af við vinnu sína en þau eru:

  1. staðgöngumæðrun verði aðeins heimiluð í velgjörðarskyni
  2. sett verði ströng skilyrði fyrir staðgöngumæðrun í því augnamiði að tryggja sem best réttindi, skyldur og hagsmuni staðgöngumæðra og væntanlegra foreldra og réttindi og hag þeirra barna sem hugsanlega verða til með þessu úrræði
  3. verðandi staðgöngumæður og verðandi foreldrar verði skyldugir til að gera með sér bindandi samkomulag um staðgöngumæðrun. 

 

Nú leikur mér forvitni á að vita hvað mönnum finnst um þetta. Það er alltaf viss hætta á því að svona mál fái enga eða litla umfjöllun í litlu samfélagi og það sé látið eftir hagsmunatengdum sérfræðingum að komast að niðurstöðu.

Það er mikilvægt að tala um þessi mál af stillingu og reyna að setja sig sæmilega inn í rök og mótrök.

Þetta er ekki fyrst og fremst læknisfræði heldur siðferðismál og ætti að vera hægt að komast nálægt kjarna málsins með brjóstvitinu.  Ég bíð eftir áhugaverðum samræðum. 


Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband