Leita í fréttum mbl.is

Full staðgöngumæðrun

Full staðgöngumæðrun er það fyrirbæri þegar fósturvísir frá pari sett í leg konu með tæknifrjóvgun og hún gengur með barnið til þess að láta það af hendi strax við fæðingu. Hún er erfðafræðilega óskyld barninu og er eingöngu burðarmóðir.

 

Vísindaleg þróun sem hefur rótækar afleiðingar:  

Staðgöngumæðrun er ekki svo rótæk hugmynd ef horft er á hana frá sjónarmiði læknavísinda, heldur rökrétt framhald af tækni sem hefur verið í undirbúningi lengi:   Í grundvallaratriðum er settur er fósturvísir inn í leg konu og hann látinn vaxa. 

Hún er hins vegar afar róttæk félagslega - það er fyrirséð að lögleiðing hefur mikil áhrif á samfélagið allt en nákvæmlega hvernig er erfitt að gera sér grein fyrir.

Ég fjalla ekki um siðfræðilega eða heimspekilega um málið en læt lesandanum eftir að álykta útfrá þeirri stöðu sem ég held að geti komið upp ef staðgöngumæðrun verður lögleidd hér á landi. Ég falla einnig um aðstæður við staðgöngumæðrun erlendis því málin verður að skoða í samhengi þar sem Íslendingar sækja einnig þangað við hugsanlega lögleiðingu hér á landi.  

Staðgöngumæðrun á Íslandi, hver gæti framvindan orðið? 

Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta verði algengt hér á landi og að athuguðu máli held ég að staðgöngumæður verði í byrjun ekki margar. Kannski verða nokkur tilfelli fyrstu árin, færri en tíu.  

Staðgöngumæður verða helst vinkonur og systur, einhverjar tekjulágar konur af erlendu bergi brotnar sem mun kannski fjölga þegar árin líða og hugsjónakonur sem vilja e.t.v."prófa einu sinni" fyrir kynsystur sínar. Ég tel útilokað að menntaðar velstæðar konur muni leggja þetta fyrir sig.

Hinsvegar munu lög um staðgöngumæðrun líklega valda því að þetta verður með tímanum talin sjálfsagður meðgönguvalkostur. Og ekki bara fyrir konur sem skortir leg eða geta heilsunnar vegna ekki gengið með barn, heldur í raun alla þá sem þess æskja.  Þetta er mikilvægt atriði og grundvöllur þess að við getum leitt líkum að því að staðgöngumæðrun muni breyta samfélaginu í veigamiklum atriðum. Ég held þetta muni ekki gerast strax - en kannski á 5-10 árum og þá komi fram hin hugarfarslegu áhrif laganna.

Ég sé fyrir mér þá framvindu að ekki verði nóg framboð á staðgöngumæðrum hérlendis og þá muni fólk leita fyrir sér erlendis til að fá þessa þjónustu. Þessa staðhæfingu byggi ég á því að fleiri konur munu æskja þessarar þjónustu, vegna ýmissa aðstæðna sem torvelda meðgöngu og ekki síst félagslegra. Karlmenn einnig þegar tímar líða.

Þá mun ekki verða spurt að því hvort starfsemin sé velgjörð ( enda útilokað fyrir Íslending að fá ókeypis leigumóður erlendis) heldur mun meðgangan verða keypt.

Þá verður staðan sú að hérlendis verður hún velgjörð en sé leitað utan landsteina mun þurfa að borga fyrir hana.  

Ekki er hægt að útiloka að einhvers konar undirborðsgreiðsla þróist hér á landi fyrir viðvikið sem eykur framboð. Mér finnst það hugsanlegt og það verður að minnsta kosti ekki hægt að koma í veg fyrir það. Peningar munu hjá vissum hópi þykja sjálfsagðir fyrir svo stórt viðvik í formi greiðslna inn á erlenda reikninga, gegnum þriðja aðila eða á annan hátt með leyndum hætti. Það er rétt að hafa þetta í huga en ekki sem neina meginreglu.

Engin leið er að banna fólki að leita þjónustunnar erlendis ef löggjafinn heimilar þetta hérlendis. Ekki nema það standi sérstaklega í lögum að óheimilt sé að gera það. Og þó mun það varla duga því hvað gerist þegar maður kemur með hvítvoðung fæddan í öðru landi til landsins og kaupin eru þegar gerð? Á að vísa honum burt?

Það gengur ekki, nema einhvers staðar komi fram í lögum að slík börn megi ekki koma inn í landið eða fái ekki ríkisborgararétt. Hvað gera menn þá, á að senda hvítvoðunginn burt? Ég get ekki séð lausnina í fljótu bragði.

Full staðgöngumæðrun erlendis er knúin af fjármagni og er næstum aldrei hrein velgjörð. Þannig virkar markaðurinn. Þetta er orðin gríðarleg verslun nú þegar sem veltir milljörðum dollara.

Sumir segja að þetta sé verslun með börn.  Nákvæmara er þó að segja að staðgöngumæðrun feli ekki í sér beina sölu á barni en ótvírætt erum að ræða sölu á móður réttinum eða afsölun á honum því samkvæmt venjulegum skilningi ( og lagalegum einnig) er móðir sú kona sem gengur með barnið. Hún er sú sem tengist því gegnum meðgönguna og nærir það við brjóst sér.

Nú gæti maður spurt: Er hægt að versla með móður réttinn? Stríðir það ekki gegn mannréttindum? Eða ætla menn að fara bakdyraleiðina og breyta skilgreiningunni á því hvað sé móðir? Það blasir við í tillögu okkar háttvirtu alþingismanna að breyta skilgreiningunni. Ekki stendur til að spyrja þjóðina að því.

Veruleiki staðgöngumóðurinnar: 

Erlendar staðgöngumæður eru valdar af læknum og lögfræðingum (og fyrirtækjum þeirra) sem meta hæfni konunnar til að gegna þessu hlutverki. Hún þarf að vera hraust og lyfjalaus, með nógu stóra grind að hún henti til barnsburðar og það er skilyrði að hún hafi átt barn áður.  Betra getur verið að hún hafi annað litarhaft en vesturlandabúinn því þá er minni hætta á því að hún tengist barninu þegar það fæðist. Þetta notfæra menn sér óspart í Ameríku þar sem fátækar blökkukonur eru í meirihluta staðgöngumæðra.

Kona sem fætt hefur áður er yfirleitt fjölskyldukona og á mann og stórfjölskyldu. Það hefur sýnt sig að þessar konur verða oft að dyljast fyrir fjölskyldu sinni til að geta tekið að sér verkefnið. Börn hennar eru ekki látin horfa upp á kviðinn vaxa heldur er hún í oftast meðgöngubúðum undir eftirliti (Indland)  Þessar konur fá skólun (oftast frákjarkmiklum eldri konum)  og læra að semja sig að aðstæðum, þægjast án spurninga, mótspyrnu eða mótmæla. 

Leigumæður þurfa að fylgja ákveðnu matarræði, svefnvenjum, hreinlæti, kynlífi, böðum, halda sig frá alkóhóli og lyfjum o.s.frv.  Einnig þurfa þær að samþykkja að barnið  sé tekið með keisaraskurði, en það er ávallt gert í lok meðgöngu.  

Misfarist meðgangan fá þær enga þóknun.

Sé barnið gallað fer konan í fóstureyðingu.

Þessar konur eru samvinnuþýðar vegna þess að miklir peningar eru í boði, kannski u.þ.b. 1/4 til 1/2 af þeirri upphæð sem fyrirtækið fær.  Þær eru í engri aðstöðu til að mótmæla við þessar aðstæður og liggur mikið við oft bæði heiðurinn og öll þóknunin ef þær óhlýðnast. 

Fjármagnið ræður: 

Í heimi fullrar staðgöngumæðrunar eru það fyrst ogfremst peningar sem ráða. Enda eru þeir miklir og báðir aðilar eru áfjáðir í viðskiptin, hefur að þessu leitinu verið líkt við viðskipti með eiturlyf, vopn og kynlíf þare sem engri stýringu verður við komið: Konan sem fær meiri peninga en hún hefur nokkru sinni séð og maðurinn/konan/parið sem fær barn, eitthvað sem þeim er ómetanlegt hvernig sem á það er litið.  Að því viðbættu er þetta viðurværi þeirra lækna, lögfræðinga og fjölda starfsfólks sem kemur að þessu og þar eru einnig miklir fjármunir í spilinu. 

Allir hafa aðgang að þessari þjónustu sem eiga peninga og það eru vitaskuld ekki bara barnlaus pör eða ófrjóar konursem fá úrlausn mála sinna heldur einnig einstaklingar karlar og konur, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir. Þó eru það hinir ríku og sterku sem knýja þetta áfram og þeir sem hafa öfluga málsvarendur eða þrýstihópa. Konur, fátækir, börn og reglur samfélagsins líða. 

Sé um einstakling að ræða þarf einnig að kaupa egg eða sæði sem þykir henta. Það er vitaskuld valið eftir gæðum og litaðir koma ekki til greina né heldur gallaðir, lágvaxnir eða tregir svo dæmi sé tekið. Ný tegund útvalningarhyggju gægist þarna fram og þó hún sé í öðru formi en við þekkjum frá síðustu öld er í raun skyld hugsun á ferðinni.

Vandi staðgöngumóðurinnar: 

Leigumóðirin gengur með barnið og myndar tengsl við það eins og eðlilegt er. Þessi tengsl þarf að rjúfa þegar barnið er tilbúið venjulega í viku 38-42 þegar hún fer í keisara.

Hún þarf einnig að gangast undir meiri fósturskimun heldur en við eigum að venjast til að tryggja að barnið sé eðlilegt. Menn sjá fram á að það muni aukast í þessum iðnaði og konum verði skipað að fara í fóstureyðingu án þess að þær ráði því sjálfar.

Einnig er hægt að gera sér það í hugarlund að kona sem gengur með barnið og er skipað að fara í fóstureyðingu vegna fósturgalla neiti því, ( sé henni það heimilt, s.k. samningi).  Hún gengur þá með barnið og eftir það gætu erfðaforeldrarnir hafnað barninu. Hún situr því uppi með barnið - kannski hálfvolg, því hún vildi peninga en ekki barn.  Aðstæðurnar geta því orðið erfiðar og hæglega skapast aðstæður þar sem enginn vill barnið.

Á hinn bóginn eru þekkt tilfelli þar sem leigumóðirin vill ekki afhenda barnið eftir að hafa gengið með það og skapast þá dómsmál vegna hvítvoðungsins. Fjölda mörg dæmi eru um þetta.

Einnig er hugsanlegt og jafnvel mjög líklegt með tímanum að iðnaðurinn leitist við að koma á móts við kúnnann um kyn og stúlkubörnum verði eytt kerfisbundið snemma í meðgöngu. Þetta er þekkt á Indlandi

Sjúkdómar og frávik á meðgöngu:

Margt getur komið upp á í meðgöngu sem erfitt er að fella í samning eða vafasamt:  Móðirin fær hættulegan blóðþrýsting sem ógnar lífi hennar og barnsins. Meðgöngusykursýki getur komið fram eða blæðingar á síðasta mánuði. Hver ber ábyrgðina og kostnaðinn á varanlegum skaða hjá móður eða barni?

Meðgöngueitrun (preeklampsia og eklampsia) kemur oft fyrir venjulegan fæðingartíma. Þá er barnið tekið með keisara fyrir tímann og maður spyr sig hvað sé gert í slíkum tilfellum við barnið hálfvaxið. Fer það á nýburadeild eða því bara látið deyja? Ekki veit ég hvað tíðkast þegar þetta hefur breyst í peningaknúinn iðnað í framandi löndum.

Börn sem fæðast af annarri móður munu ekki fá móðurmjólk af brjósti. Ekki er mjólkin einungis holl og styrkir ónæmiskerfið heldur gegnir sog brjósta veigamiklu hlutverki við að tengja saman móður og barn tilfinningalega og líkamlega.

 

Það virðist vera veigamiklir gallar á tillögu alþingismannanna um fulla staðgöngumæðrun og niðurstaða mín er sú að ekki sé forsvaranlegt að lögleiða hana að svo stöddu. 

Mínar tillögur í málinu eru þessar:   

Að bíða með frumvarpið en hefja samráð meðnágrannalönd okkar um hvaða skref séu heppileg í þessu efni. Bæði varðandi fulla staðgöngu innanlands og kaup á slíkri þjónustu erlendis. 

Í bili að leyfa hefðbundna staðgöngumæðrun til að koma á móts við þær konur/ pör sem geta nýtt sér hana. Hún er sjálfstakmarkandi og beinist einkum að því að hafa leyfi til að njóta hjálpar frá systur eða vinkonu sem er reyndar markmið frumvarpsins.

Að rýmka reglur fyrir venjulega ættleiðingu og setja í hana fjármuni svo hún geti reynst fleyrum raunverulegur valkostur.

Að banna fulla staðgöngumæðrun áfram.

Banna innflutning á börnum sem eru getin við fullastaðgöngumæðrun í hagnaðarskyni erlendis.

Hvetja alþjóðasamfélagið og WHO til að móta sameiginlega  ásættanlega stefnu varðandi kaup Vesturlandabúa á fullri staðgöngumæðrun í þriðja heiminum. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband