Leita í fréttum mbl.is

Ný tillaga um staðgöngumæðrun. Umsögn mín

Ég hef áður sent umsögn vegna fyrri tillögu til þingsályktunar um staðgöngumæðrun og það virðist hafa verið tillit til hennar að einhverju leiti.

Ég er ánægður með að þingmenn virðast ætla að haga tillögugerð þannig að staðgöngumæðrun sé einungis ætluð þeim örfáu konum eða pörum (áætlað kringum fimm á ári) sem á þurfa að halda vegna sjúkdóma og að meirihluti þingmanna sé samþykkur því að reyna að girða fyrir að þetta þróist yfir í annað en stefnt var að. Mikilvægustu breytingarnar eru:

a. Að hindra að staðgöngumæðrun verði talinn sjálfsagður meðgönguvalkostur allra þeirra sem æskja þess eftir örfá ár. Ég leiddi líkur að því í fyrri umsög minni að það yrði þróunin ef löggjafinn hugði ekki að sér.

b. Hitt atriðið sem ég nefndi í umsögn minni og margir hafa tekið undir m.a. allir flutningsmenn tillögunar leggjast gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Löggjafinn virðist átta sig á því að það er ekki nóg að tilgreina þetta í lögunum heldur þarf að fylgja því eftir á margvíslegan máta með viðbótarákvæðum.

c. Löggjafinn hefur einnig fallið frá því að breyta skilgreiningunni á móðurhlutverkinu og það er vel.

d. Menn virðast mótfallnir því að greitt sé fyrir staðgöngumæðrun erlendis og börnin færð hingað heim. Því er ég fyllilega sammála. Það er á grundvelli þessarra breytinga sem ég set mig niður og hugsa málið upp á nýtt en það virðast fjölmörg atriði sem þurfa athugunar við.

 

Athugasemdir mínar lúta að eftirfarandi:

1. Þegar búið er að leyfa staðgöngumæðrun fyrir ákveðin hóp er ekki ólíklegt að einhverjum þyki á sér brotið ef menn geta ekki sjálfir á eigin spítur gert það sama erlendis og komið með barnið heim. Sú útfærsla staðgöngumæðrunar er sem kunnugt er ekki framkvæmanleg nema fyrir greiðslu. Því hefur bann við staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sérstaka þýðingu. Ekki er nægilegt að segja slíka starfsemi ólöglega hér á landi heldur þarf að girða fyrir að hægt verði að kaupa þessa þjónustu erlendis og koma með börn hingað til lands. Það er einfaldast gert með þeim hætti að óheimilt verði s.k. lögum að gefa út íslenskt vegabréf fyrir börn sem getin eru með staðgöngumæðrun erlendis. Þetta lít ég á að sé algjört grundvallaratriði ef Ísland á að verða fyrirmyndarland í þessum málum.

2. Það er hæpið að hægt verði að girða fyrir greiðslu fyrir staðgöngumæðrun ef fólk er ákveðið í að láta af hendi fé fyrir greiðan. Það gæti myndast hefð fyrir undirborðsgreiðslum og getur löggjafin þá ekkert gert nema það sé tekið fram að það sé óheimilt og greint frá viðurlögum við slíku broti. Einnig gæti það gerst að menn kærðu sig kollótta um slík viðurlög í formi sekta og legðu á sig að greiða staðgöngumóður fyrir greiðan og sektina að auki. Það er líklegasta niðurstaðan að mínu áliti og því set ég hana fram hér. Slík viðurlög þurfa því að vera afgerandi eins og um barnasölu/kaup sé að ræða.

3. Mín skoðun er sú að til að hindra að þetta þróist sem atvinnuvegur sé óhjákvæmilegt annað en að tiltaka í lögum að óheimilt sé að greiða fyrir vinnutap staðgöngumóður.

Við getum séð fyrir okkur hjúkrunarfræðing sem hefur um 700 þús í laun á mánuði með vöktum. Hún myndi þá reikna sér 6,3 milljóna króna viðurgernig á 9 mánaða tímabili fyrir vinnutap og það segir sig sjálft að velgjörð er þá nafnið tómt og skjótt myndi þróast markaður. Menn myndu leita eftir konum sem hefðu lág laun í sínu fasta starfi til að viðurgerningur yrði lágur. Mjög mikilvægt er að menn falli ekki í þá gryfju að greiða fyrir vinnutap því það stríðir algjörlega gegn hugmyndinni um velgjörð. Orlof fyrir staðgöngumóður á ekki við því þetta er ekki launað starf heldur velgjörð.

4. Ég vil benda á að fæðingarorlof eru greiðslur af almannafé og því er ekki sanngjarnt og rétt að hafa það tvöfalt þ.e. bæði fyrir staðgöngumóður og fjölskylduna sem fær barnið. Ég mæli með því að fæðingarorlofið fylgi barninu og sé það samkomulag hvernig það skiptist. Maður gæti séð fyrir sér skiptingu t.d. 1-3 mán til staðgöngumóður ( sem tekin eru út á síðustu mánuðum meðgöngu í stað greiðslu fyrir vinnutap) og restin til hinnar nýju fjölskyldu.

5. Auglýsingar. Fyrirsjáanlegt er að skortur verður á staðgöngumæðrum þegar menn hafa áttað sig á þessum möguleika hér innanlands ef jafnframt er girt fyrir að greitt sé fyrir hann erlendis. Þá mun að öllum líkindum skapast ástand sem felur í sér að konur og pör sem sárlega finnst þeim þurfa þessa úrlausn verða ekki sátt og finnst jafnvel á sér brotið. Það eiga ekki allir systur, vinkonur eða aðra velgjörðarmenn sem geta gert þetta. Gera má ráð fyrir að þá skapist þrýstingur að greiða fyrir þjónustuna og auglýsa hana jafnvel með gylliboðum í blöðum, á netinu osfv. Löggjafinn þarf að hafa skíra sýn á þessum vanda sem næstum örugglega mun skapast.

6. Farsælt væri að greina frá í lögunum eða meðfylgjandi reglugerð hvaða útgjaldaliðir megi falla undir útlagðan kostnað. Það getur verið nauðsynlegt að vita þegar frá byrjun hvað hann felur í sér svo kostnaður víki ekki út fyrir skynsamleg mörk og nálgist það sem gæti kallast “launuð velgjörð”.

7. Talað er um í frumvarpi að staðgöngumæðrun sé ætlað að koma á móts við konur og pör sem geta ekki eignast börn vegna ágalla svo sem legleysis, krabbameinsmeðferðar eða erfðagalla. Það er vissulega vel hugsað. Ég spyr mig hvernig löggjafinn ætli að gæta jafnræðis og mæta fólki af sanngyrni til dæmis þegar kona með sykursýki, gikt, síþreytu eða þrönga grind vill einnig fara fram á sömu þjónustu. Eða aðra króníska sjúkdóma. Hvað með fötluðu konuna (sem annars er hraust) sem langar í barn eða manninn sem er einn og ógiftur? Eða eldri hjónin sem langaði í barn en misstu af lestinni. Verður ekki að sinna þessu fólki einnig? Er ekki hætt við lögsóknum síðar meir á hendur ríkinu og fólk fer að átta sig að lögin mismuna fólki?

8. Með vísan í lið 7. legg ég til þá einföldu lausn að greina milli sjúkra og heilbrigðra. Þannig að eingöngu sé heimilt s.k. lögum þessum að koma á móts við það fólk sem líður af sjúkdómum samkv.sjúkdómaskrá ICD10 (svo viðmið sé alþjóðlega viðurkennt) sem sannanlega hindra meðgöngu, en ekki þá sem teljast heilbrigðir. Þeir sem falla þá utan þessarar skilgreiningar eru frískir karlmenn og konur óháð aldri. Undir þá skilgreiningu falla einnig frískir gagnkynhneigðir og samkynhneigðir einstaklingar. Engir þessara teljast hafa sjúkdóma.

Spurningin er: Ef samkynhneigðir karlmenn fá aðgang að þessu úrræði, sem ég býst við að verði baráttumál fyrir einhverja hópa, verður þá ekki að veita öllum frískum karlmönnum það sama óháð því hvort þeir búa einir eða með maka? Það virðist blasa við. Því legg ég til að þessi einföldu landamæri séu virt.

9. Hvernig má koma í veg fyrir að staðgöngumæðrun verði atvinnuvegur fátækra erlendra kvenna sem flytjast til landsins til að fá hér réttindi gagngert til að geta gengið með börn fyrir aðrar konur? Þessu þarf að svara. Hægt er að sjá fyrir sér aðstæður þar sem kona frá fjarlægu landi sem hefur fengið íslenskan ríkisborgararétt á þremur árum fer úr sínu venjubundna starfi og ákveði að ganga með fyrir aðrar konur - nokkrum sinnum. Hún er huganlega meðvituð um velgjörðarákvæðið en þóknun fyrir vinnutap og mögulegar undirborðsgreiðslur tryggja ríkulega þóknun, jafnvel þó svo viðkomandi lendi í því að greiða sekt fyrir að hafa þegið greiðslu. Það sem ég vil benda á er að sekt er engin hindrun. Þegar þessi mynd er dregin upp verður að hafa í huga að gríðarlega sterkur hvati rekur þetta áfram ( ekki ólíkt og verslun með fíkniefni) , bæði þeirra sem vilja barnið og hins sem vill peningana.

10. Tillaga sem nefnd er í þingsályktunartexta um að huganlega megi binda skilyrði við að staðgöngumóðir sé náinn ættingi eða vinkona til að fyrirbyggja misnotkun lagana. Hún er athyglisverð fyrir það að hún er töluvert “íslensk” og gæti tryggt eðlilegt aðhald án mikilla afskipta ríkis og stofnana. Ég set mig alls ekki á móti henni. Hún gæti tryggt að um raunverulega velgjörð sé að ræða, fyrir utan það mikilvægasta – að tryggja velferð barnsins ef eitthvað fer úrskeiðis t.d. skilnaður eða andlát. Sé þessi leið valin þarf hinsvegar að hafa í huga að margar konur og pör hafa alls ekki aðgang að slíku velgjörðarfólki, jafnvel fæstir. Það getur valdið óánægju og undið upp á sig.

11. Endurskoðurnarákvæði eftir 2-5 ár finnst mér áhugaverð tillaga sem getur róað þá sem óttast að þessi lög verði til tjóns þar meðtalið mig sjálfan. Endurskoðun að auki eftir 10-15 ár er jafnvel enn áhugaverðari því það tekur tíma fyrir ágalla að koma í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Ég hef fylgst með þessari umræðu en ekkert blandað mér í umræðuna ég er mjög svo sammála þinni gagnrýni og mjög gott hvað þú ert fylgin þér í þessari umræðu ekki veitir nú af.

Mér finnst of mikill hraði og pressa á þessu máli í þinginu og umræðan þar hefur verið of lítil þetta virðist vera eitt af þeim málum sem á að troða í gegn á ofsa hraða - þetta er graf alvarlegt mál sem ekki má troða í gegn með einhverri flýti meðferð - það liggur ekkert á þessu.Það er engin umræða um staðgöngumæðrun í þjóðfélaginu  á netinu eða fjölmiðlum- eina umræðan sem hefur verið er þetta lítilræði sem komið hefur fram í þinginu og það er ekki tímabært að troða þessu máli þar í gegn - ófullburða - það væri stór hættulegt - En takk fyrir að þú skulir standa vaktina í þessu alvarlega máli gagnvart þinginu - ekki veitir af. Það skortir mikið á þekkingu hjá þeim þingmönnum sem eru að beita sér fyrir þessu máli - það er eins og það sé keppikeflið að vera á undan öðrum löndum eins og með samkynja-dæmið.

Benedikta E, 28.11.2011 kl. 00:54

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Guðmundur hefur staðið sig frábærlega vel í skrifum um þessi mál hér á Moggabloggi sínu –– og hefurðu ekki birt eina grein um málið í Morgunblaðinu, Guðmundur?

Ég fagna því, að umsögn þín berist Alþingi –– sem þarf að reyna að varðveita þá gömlu hefð sína að vera hátt og leggjast ekki lágt.

Jón Valur Jensson, 28.11.2011 kl. 08:47

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Aðkoma þín að þessu máli var þörf.

Ragnhildur Kolka, 28.11.2011 kl. 10:43

4 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Takk fyrir tilskrifin hér að ofan Benedikta, Jón og Ragnhildur. Tillagan hefur breytst umtalsvert frá fyrra frumvarpinu. Fleiri geta held ég sætt sig við þingsályktunartillöguna nú en áður. Þessi mál eru ávallt full af óvissu og engin leið að sjá hvernig þróast og það er stærsta vandamálið. En svo er að sjá hvernig sjálft frumvarpið verður.

Guðmundur Pálsson, 28.11.2011 kl. 18:41

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Jón þú spurðir um grein mína í Mbl. Það passar það var umsögnin við fyrra þingsályktunartillöguna sem heitir Staðgöngumæðrun á Íslandi, hver gæti framvindan orðið?

Guðmundur Pálsson, 29.11.2011 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband