Leita í fréttum mbl.is

Er þjóðaratkvæði nauðsynlegt um 62. grein stjórnarskrárinnar og stöðu þjóðkirkjunnar?

Biskupsstofa fór þess á leit við mig að ég gerði grein fyrir afstöðu minni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.”

Lagðar voru fyrir eftirfarandi spurningar og hér eru svörin:

Telur þú þörf á að breyta þessari grein?
 
Já, líklega er þörf á að breyta þessu ákvæði. En aðeins með þjóðaratkvæðagreiðslu svo að sem flestir komi að þessari ákvörðun.
 
 
Ef svo er þá hvernig?
 
Um breytingar á greininni þarf víðtækt samráð og það er ekki heppilegt að kosnir stjórnlagaþingsmeðlimir fari að þrátta um trúmál og stöðu kirkjunnar af þeirri ástæðu að ef það gerist skapast óeining um mjög viðkvæmt mál og jafnvel er hætta á að öll stjórnarskrárvinnan fari í uppnám.  Örfáir einstaklingar eiga ekki að skera úr um þetta mál og er beinlínis rangt að gera það.
 
 
Hvernig er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
 
Þjóðkirkjan er sterkt akkeri í íslenskri sögu og þjóðlífi og Ísland er ríki sem byggir á kristnum gildum sem nauðsynlegt er að varðveita.
 
En fólkið á sjálft að varðveita þessi gildi en ekki ríkisvaldið, hvorki er það rétti aðilinn til þess né heldur þess megnugt. Ekkert ríki getur haldið lifandi trú að fólki svo vel sé. Ef það gerist mun sú sama trú afbakast og spillast.
 
Mín persónulega skoðun er því sú að kirkjan ætti að vera sjálfstæð gagnvart ríkisvaldinu. En vera sterk - jafnsterk og fólkið sjálft í landinu, hinir trúuðu leyfa henni að vera.
 
Ég held því að það sé gott fyrir hina kristnu kirkju og þjóðina að sjálfstæði þessarra tveggja aðila sé tryggt og ég tel raunar að það geti eflt trúarlíf þegar til lengdar lætur, gert það sannara og betra.
 
Stjórnarskráin má vitaskuld ekki vinna gegn kristni á neinn hátt en hafa mætti ákvæði um trúfrelsi svipað og greinir í öðrum stjórnarskrám vestrænna lýðræðisþjóða og í Bandaríkjunum Það er nútímalegt og ekki andstætt kristinni boðun.
 
Tökum dæmi um finnsku stjórnarskrána þar sem fjallað  er um trúfrelsi í 11. grein, en þar stendur:
 
Um trúfrelsi og rétt til sannfæringar.

1. Sérhver maður hefur frelsi til trúar og sannfæringar.
2. Með trúfrelsi er átt við réttinn til að játa trú, taka þátt í trúariðkun, tjá sig um trúarsannfæringu sína og tilheyra trúfélagi eða söfnuði.
     Engan má skilda gegn sannfæringu sinni til að að taka þátt í trúarathöfn.
 
Þetta virkar hófsamt og spillir ekki fyrir neinum hvorki þeim sem trúa eða þeim trúlausu.
 
Ég legg áherslu á að við þurfum að halda okkur viðgrundvallaratriðin og ekki fara að róta of mikið í kirkjupólitík.
 
Mín skoðun er sú að það eigi að kjósa sérstaklega um stöðu kirkjunnar í stjórnarskránni, 62. greinina í þjóðaratkvæðagreiðslu og líklega mun það skapa mesta sátt um málið. Sama gildir raunar um ESB, en það mál hefur sama klofningskarakter og aðeins þjóðin sjálf getur greitt úr vanda af þeim toga.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er afar forvitinn að fá að vita hver hin sérkristnu gildi eru. Heyri þessu svo oft skellt fram, en fæ ekki séð hvað af þeim samfélagsgildum, sem við byggjum á eru alfarið af kristnum rótum runnin og þá einnig hvort þau hverfi við aðskilnað ríkis og kirkju.

Áróðursmasína ríkiskirkjunnar matreiðir þetta alltaf eins og verið sé að uppræta kristni og þar með gildi þau sem hún eignar sér.

Ég veit fyrir víst af ágætri þekkingu á biblíunni og sögunni að þrennt er ekki að finna í þessu samhengi, en það er jöfnuður, mannréttindi og einstaklingsfrelsi.  Menntun og þekkingarleit er heldur ekki eitthvað sem hægt er að segja að kristnin, frekar en önnur trúarbrögð hafi hvatt eða eflt í gegnum söguna.  Raunar virðist krikjan ekki haf hugmynd um hlutverk og eðli menntunnar, sem sjá má af áfergju þeirra í að koma trúboði inn í grunnskólanna.

Það væri ágætt að fá lista yfir þessi Kristnu gildi og þá rökstuðning fyrir því að tilvist þeirra sé háð Kristinómnum eða Kirkjunni.

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2010 kl. 07:08

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars finnst mér svar þitt við undarlegri fyrirspurn biskupsstofu vera ágætt, tiltölulega hlutlaust og vel rökstutt.

Kirkjan er ein um það af öllum, sem hagsmuni hafa í nýrri stjórnarskrá að gerast svo óforskömmuð að reyna að hafa áhrif á hug frambjóðenda.  Það sýnir forneskju hennar, yfirgang og vanþekkingu á grundvallarþýðingu þessa samkomulags. 

Jón Steinar Ragnarsson, 21.11.2010 kl. 07:20

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Guðmundur, ég hef sett það fram í mínum greinum að Stjórnlagaþing eigi að leggja til að 62. gr verði felld á brott úr Stjórnarskránni. Ég benti einnig á að það hefur engin áhrif á þá samninga sem eru í gildi milli Ríkis og Þjóðkirkju en ég er þér sammála um að sambandið á að útkljá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 21.11.2010 kl. 11:45

4 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Sæll Jón Steinar. Ég veit ekki hvort ég get listað fyrir þig sérkristin gildi því ég er fremur lélegur í pottþéttum listum. En kristnu dyggðirnar eru t.d. trú, von og kærleikur. Af þessu þrennu skyldi maður ekki vanmeta kærleikann en hann kemur víða fram td  í lögum okkar, listum og menningu. Hann smýgur allstaðar þar sem honum er ekki hreinlega stuggað frá og hann, ef svo má segja frelsar manninn frá sjálfum sér og eigingirninni sem okkur er svo ásköpuð. En eins og þú segir eru ýmis góð gildi s.s. frelsi, réttlæti og jafnrétti virðast vaxin úr frá hugmyndastraumum sem okkur er einnig nærri eins og grískri heimspeki. Engin veit eiginlega hvaðan þau eru upprunnin. Enginn getur eignað sér neitt. En varðandi svar mitt hér að ofan er mér hugað um almennt trúfrelsi.

Guðmundur Pálsson, 21.11.2010 kl. 22:24

5 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Þakka þér svar þitt Sigurður Grétar. Það er rétt að brottnám 62. greinar hefur engin áhrif á gerða samninga milli ríkis og kirkju. Það þarf þá eitthvað mikið að koma til.

Guðmundur Pálsson, 21.11.2010 kl. 22:28

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Trú Von og kærleikur eru ekki bara kristinn gildi Guðmundur minn, allir eiga sér von og kærleikurinn hefur ekkert með kristindóm að gera heldur er hann innbyggður í mannlegt eðli, trú er svo eitthvað sem allir þurfa á að halda, hvort sem það er trú á stokka og steina eða einhverjar æðri verur. 

Kristinn gildi eru nefnilega að mínu mati ekki til, heldur hafa kirkjunnar menn eignað sér það besta í mannlegu eðli sjálfum sér til framdráttar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.11.2010 kl. 11:12

7 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég get alveg tekið undir þetta hjá þér Ásthildur að þetta býr í öllum mönnum og enginn þarf að eigna sér grunneigindir mannsins. Sérhver fjallar um þær frá eigin sjónarhorni og ef ég bara vissi hvaðan vonin kemur! Hinsvegar tekur þú nokkuð djúpt í árinni þegar þú segir að "kærleikurinn hefur ekkert með kristindóm að gera." Kannski væri nær að segja að það sé eini raunverulegi boðskapur kristninnar.  Kirkjan ( ath ég er ekki að tala eingöngu um þjóðkirkjuna ) er eina stofnunin sem snýst um að miðla þekkingu á þessu undarlega fyrirbæri. Hún ætti a.m.k að gera það. En nú erum við komin langt út fyrir efnið. Stjórnarskrá þarf að gefa sérhverjum manni það rými sem hann þarf hvort sem hann er trúaður eða trúlaus.

Guðmundur Pálsson, 22.11.2010 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband