Leita í fréttum mbl.is

Hugmyndir í tuttugu og níu liðum um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.

Hér eru hugmyndir mínar í tuttugu og níu liðum um nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. 

 

1. Góð stjórnarskrá þarf að endurspegla þau grunngildi sem við viljum lifa eftir hér á landi. Okkar stjórnarskrá þarf að efla lýðræði og gefa okkur skíra stjórnskipan sem endurvekur trú Íslendinga á þjóðskipaninni. Hún þarf að vera fyrir alla landsmenn.

 

2. Hún þarf að vera á eðlilegu og einföldu máli sem allir skilja. 100-150 stuttar greinar sem rúmast á 10 til 20 blaðsíðum.

 

3. Stjórnarskrárvinnan á ekki að vera átakavöllur um það hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki. Ég bið kjósendur að sniðganga þá sem vilja gera stjórnarskár vinnuna að slíku máli. Þessi mál verða tekin fyrir á öðrum vettvangi, með þjóðaratkvæði og aðeins þannig næst sátt um málið.

 

4. Við þurfum ramma sem stuðlar að sátt milli manna svo þeir geti þroskast og látið drauma sína rætast: Menntað sig, unnið og séð fyrir sér, fjölgað sér og fundið merkinu í lífi sínu.

Ræktað sína lífsskoðun eða trú og fundið fyrir öryggi. Stjórnarskráin leggur þennan grunn.

 

5. Ríkisvaldið þarf eðlilegar skorður og skipulag þess þarf að vera skiljanlegt venjulegum borgara.

Ég kem með hugmyndir og útfærslur hér að neðan.  

 

6.  Ný stjórnarskrá þarf að byggja á hefðinni. Þeirri stjórnmálahefð sem við þegar höfum en sníða þarf af vankanta og herða á vissum hlutum sem sátt næst um. Það er ekki skynsamlegt að rífa allt upp með rótum úr þeirri stjórnarkrá sem fyrir er.

 

7. Hún má ekki vera útópísk eða tæknileg, ögrandi eða öfgafull jafnvel þó það kunni að vera freistandi fyrir suma hópa að vinna að því.

 

8. Stjórnarskráin má ekki festa einhvern hóp samfélagsins í skorðum sem annar hópur ákveður.

 

9. Hafa í skránni ákvæði, sem treysta aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds. 

 

10. Ráðherrar eiga ekki að vera lagasemjendur eins og er við líði í dag með ráðgjafa sína í ráðuneytinu að semja lög að geðþótta ráðherrans, vitandi að lögin fara í gegn um Alþingi sama hvað hver segir, annars falli stjórnin. Ráðherrar verða að fá starfsreglur sem aðskilur starfssvið þeirra frá löggjafanum.

 

11. Ég er hlynntur því að kjósa sérstaklega forsætisráðherra sem er ábyrgur fyrir því að velja einstaka fagráðherra utan hóps alþingismanna. Ráðherrarnir starfa í grunnin eins og framkvæmdastjórar og eru ábyrgir gagnvart forsætisráðherra sem hefur hið formlega umboð kjósenda. Allir ráðherrar eiga svo að vera samábyrgir fyrir hverri stjórnarathöfn.

 

12. Mín hugmynd er að setja reglur um starfssvið Alþingis og afmarka störf alþingismanna við samningu almennra laga, afgreiðslu fjárlaga og störf í þingnefndum sem mega fá stærra hlutverk og meira fjármagn.

 

13. Þingnefndir alþingis mættu því vera valdameiri og sjá t.d. um stefnumótun og lagagerð á sviðum menntamála, samgöngumála osfv. Með þessu móti virkjast stjórnarandstaðan sem samvinnuaðili sem hefur skort mjög á og einræðistilburðir og ráðherraræði minnkar.

Ráðuneytin hafi hins vegar ekki þetta stefnumótunarhlutverk (eins og nú er) heldur séu ráðuneytin eingöngu stofnum sem sér um framkvæmd laga. Enda eru innan ráðuneytanna ekki þeir fulltrúar sem við kjósum til að skipuleggja framtíð okkar heldur eru það alþingismenn sem gera það með lagasetningu.

 

14. Afnám s.k. þingræðis kemur til greina eins og margir hafa bent á. Það felur í sér að líf hverrar ríkisstjórnar er ekki háð Alþingi um stuðning hverju sinni. Hinsvegar getur Alþingi á grundvelli málefna fellt ríkisstjórnina með vantrauststillögu með meir en helmingi atkvæða.

 

15. Hægt væri að hafa almennar kosningar þannig að þær fælu ávallt í sér kosningar á framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi og eftir sérstökum reglum kosning á nýjum dómurum.

Algjörlega nýtt form kosninga

Þannig: Menn kjósa til alþingis bæði flokk og einstaklinga - og einstaklinga geta menn þá kosið yfir flokkslínurnar ef þér hugnast svo. Ég hafði þegar nefnt kosningu forsætisráðherra.  Í þriðja lagi fari fram s.k. dómarakosning. Tökum dæmi:  Til að fylla þann flokk dómara sem landið þarfnast í hæstarétti þarf á einhverju tímabili einn dómara. Þú kýst á milli þeirra dómara sem teljast faglega hæfir. Segjum að þrír séu hæfir. Þú kýst einn þeirra. Hann er æviráðinn og ekki hægt að reka hann. Það er ástæða til að allir kosningabærir menn komi að þessu mikilvæga atriði. Þá er hægt að segja með sanni að fólk kjósi sér dómsvaldið og enginn úr öðrum kimum valdsins kemur að því.  Það er margt hægt í okkar fámenna landi sem ógerningur er erlendis, og því ekki að nýta okkur það. 

 

 

16. Kjördæmaskipun þarf að líta á og jafna kosningarétt um allt land. Jafnt atkvæðavægi óháð búsetu. Um fjölda kjördæma veit ég ekki.

17. Ég er ekki sérlega hlynntur einstaklingsframboðum. Hætt er við að peningar, ætterni og kunningsskapur ríki yfir slíku kerfi. Nei, betra er að hafa áfram stjórnmálaflokka í framboði, helst þó hvort tveggja flokka og einstaklinga, sem veita hvorir öðrum aðhald.

Ad menn geti kosið flokka og/eða einstaklinga eftir því sem þeim hentar. Sbr. kerfi í Ástralíu. Útstrikanir fái aukið vægi og e.t.v. að það fari fram s.k. þreföld kosning. 

 

18. Ísland er ríki sem byggir á kristnum hefðum en ég er hlynntur því að kirkjan sé sjálfstæð gagnvart ríkinu. Stjórnarskráin má heldur ekki vinna gegn kristninni á neinn hátt en hafa þarf ákvæði um trúfrelsi eins og er í öðrum stjórnarskrám vestrænna lýðræðisþjóða og í Bandaríkjunum. Það kemur vel til greina að kjósa sérstaklega um stöðu kirkjunnar, 62. greinina í þjóðaratkvæðagreiðslu og líklega mun það skapa mesta sátt um þetta viðkvæma mál. Mín skoðun er sú að kirkjan hafi ekkert að óttast við fullt sjálfstæði. Sjá nánar á www.kirkjan um stjórnlagathing og aðra pistla mína hér að neðan.

 

19. Það má ekki halla á neinn hóp í stjórnarskránni: Ekki eldri borgara eða börn. Ekki konur, veikt fólk, fatlað eða vanskapað, trúaða eða trúlausa. Enginn hópur má heldur ætla sér sérstaka meðferð eða forréttindi. Allir skulu vera jafnir að metum að lögum eins og hefð okkar býður.

 

20. Eignarréttur auðlinda og nýting hans á að tilheyra þjóðinni. Þó þarf að gæta sín og má ákvæðið ekki vera klaufalega orðað og hindra skynsamlega nýtingu auðlynda.

 

21. Það má ekki vera ákvæði um að við megum ekki verja okkur sem þjóð. Því er marklaust og skaðlegt að segja að við megum ekki taka þátt í að verja landið. Tímarnir breytast og við verðum eins og aðrar þjóðir að gera okkur grein fyrir að frið þarf að tryggja.

 

22. Ekki er fráleitt að segja að Ísland þurfi alltaf að vera varið með einum eða öðrum hætti annað hvort af okkur sjálfum eða með hjálp annarra ríkja eða ríkjabandalaga. Þetta vilja margir Íslendingar ekki viðurkenna en hér þarf virkilega að hugsa málið og sjást ekki yfir þetta mikilvæga atriði.

 

23. Fleiri ákvæði þarf um öryggi ríkisins, hryðjuverkaógn, jarðskjálfta, eldgos, alvarlega mengunarslys í norðurhöfum og aðrar náttúruhamfarir og er hægt að leita í smiðju nágrannalandanna varðandi þetta.

 

24. Ákvæði um að grunnmenntun barna í landinu skuli gjaldfrjáls. Þetta er skynsamlegt og við skulum hafa þetta inni, það gera Finnar.  Þetta er eina "gjaldfrelsisákvæðið" sem ég get stutt.

 

 25. Skráin þarf að innihalda ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér hugnast að forseti, þing (2/3)og almenningur ( 30 þús undirskriftir) geti eftir nánari reglum kallað til þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál. Mikilvægt: Sérstakt kerfi þarf að byggja upp ( almennar upplýsingaskrifstofur, jafnvel í tengslum við bókasöfnin í landinu eins og í skandinavíu ) svo undirbúningur fyrir atkvæðagreiðslur sé eðlilegur og allir geti tekið þátt og ekki minnst að upplýsingaflæði fyrir slíkar kosningar sé hlutlaust, ódýrt og aðgengilegt öllum.

26. Ekki er heppilegt að dómsmálaráðherra landsins skipi dómara eins og nú er.  Í héraði er nú sami aðili sem rannsakar og dæmir mál og hefur mannréttindaráð Evrópu gert athugasemd við þetta. Setja mætti á stofn héraðsdómstóla á fjórum stöðum úti á landi til að mæta þessum kröfum.  

27. Setja þarf á laggirnar stjórnlagadómstól. Hlutverk hans er að fara yfir þau lög sem alþingi samþykkir og úrskurða hvort ný lög brjóti í bága við stjórnarskrána. Önnur álitamál sem varða grunnlög okkar fara fyrir þennan dóm.

28. Ég vil hafa í stjórnarskrá lög sem ákveða hámarkssetu manna á alþingi. Alþingismenn geti aðeins starfað í 10 ár. Hugmyndin er að tryggja eðlilega endurnýjun  í valdastöðum. 

29. Forseti Íslands: Kjörtímabilin séu 6 ár í stað fjögurra og hann megi aðeins sitja tvö tímabil hið mesta. Ég vil að forsetinn hafi áfram málskotsrétt og geti borið einstök lög undir þjóðina sem fjalla um mikilvæg álitamál sem öll þjóðin þarf að koma að. 


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband