Leita í fréttum mbl.is

Staðgöngumæðrun á Íslandi, hver gæti framvindan orðið?

 

Ég hef velt því fyrir mér hverjar gætu orðið afleiðingar væntanlegrar lagasetningar á Íslandi.  Að athuguðu máli held ég að íslenskar staðgöngumæður verði í byrjun ekki margar. Kannski nokkur tilfelli fyrstu árin, færri en tíu á ári. Og þetta er einmitt það sem löggjafinn gerir ráð fyrir. 

Staðgöngumæður gætu orðið vinkonur og systur, tekjulágar konur af erlendu bergi brotnar sem mun kannski fjölga þegar árin líða og hugsjónakonur sem vilja e.t.v."prófa einu sinni" fyrir kynsystur sínar. Ég tel útilokað að menntaðar velstæðar konur muni leggja þetta fyrir sig. 

Hinsvegar munu lög um staðgöngumæðrun líklega valda því að þetta verður með tímanum talin sjálfsagður meðgönguvalkostur. Og ekki bara fyrir konur sem hafa sjúkdóma í legi eða geta heilsunnar vegna ekki gengið með barn, heldur í raun alla þá sem þess æskja. 

Þetta tel ég vera mikilvægt atriði og grundvöllur þess að við getum leitt líkum að því að staðgöngumæðrun muni breyta samfélaginu í veigamiklum atriðum. Ég held þetta muni ekki gerast strax - en kannski á 5-10 árum og þá komi fram hin hugarfarslegu áhrif laganna.

Af þessum orsökum sé ég fyrir mér þá framvindu að ekki verði nóg framboð á staðgöngumæðrum hérlendis og þá muni fólk leita fyrir sér erlendis til að fá þessa þjónustu.

Þessa staðhæfingu byggi ég á því að fleiri konur munu æskja þessarar þjónustu, vegna ýmissa aðstæðna sem torvelda meðgöngu og ekki síst félagslegra ástæðna sem ekki hefur verið mikið bent á í umræðunni.

Við getum ef til vill séð fyrir okkur konu sem langar í sitt annað eða þriðja barn og vegna vanlíðunar í síðustu meðgöngu ætlar hún að láta ganga með fyrir sig í þetta sinn. Önnur mynd væri af karlmanni sem skilur á besta aldri og missir tengsl við börnin sín eða forsjá forsjá þeirra. Hann leigir sér staðgöngumóður erlendis og tekur barn heim. Þetta hljómar framandlega nú en það er ekki víst það verði það eftir 10-15 ár - ef lögin ná fram að ganga.  

Þá verður staðan sú, að hérlendis verður hún velgjörð en sé leitað utan landsteina mun þurfa að borga fyrir hana. Ekki er hægt að útiloka að einhvers konar undirborðs-greiðsla þróist hér á landi fyrir viðvikið sem muni auka framboð. Mér finnst það hugsanlegt og það verður að minnsta kosti ekki hægt að koma í veg fyrir það. Peningar munu hjá vissum hópi þykja sjálfsagðir fyrir svo stórt viðvik í formi greiðslna inn á erlenda reikninga, gegnum þriðja aðila eða á annan hátt með leyndum hætti. Það er rétt að hafa þetta í huga en ekki sem neina meginreglu.

Engin leið er að banna fólki að leita greiðans erlendis ef löggjafinn heimilar þetta hérlendis en þessi verslun með meðgöngur og leigumæður blasir við sem nýtt alþjóðlegt vandamál í samskiptum ríkra þjóða og fátækra.Það er orðin gríðarleg verslun nú þegar og veltir milljörðum dollara.

Sumir segja að þetta sé verslun með börn. Nákvæmara er þó að segja að staðgöngumæðrun feli ekki í sér beina sölu á barni en ótvírætt erum að ræða sölu á móðurréttinum eða afsölun á honum því samkvæmt venjulegum skilningi ( lagalegum skilingi einnig) er móðir sú kona sem gengur með barnið. Hún er sú sem tengist því gegnum meðgönguna og nærir það við brjóst sér. Nú gæti maður spurt: Er hægt að versla með móðurréttinn? Stríðir það ekki gegn mannréttindum?

Eða ætla menn að fara bakdyraleiðina og breyta skilgreiningunni á því hvað sé móðir? Það blasir við ef litið er á tillögu okkar háttvirtu alþingismanna að breyta einfaldlega skilgreiningunni en þar stendur: 

Í barnalögum, nr. 76/2003, er tiltekið í 5. gr. að móðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun skuli teljast sú kona sem elur barnið. Þetta ákvæði getur ekki staðið samhliða heimild í lögum um tæknifrjóvgun til staðgöngumæðrunar enda þarf að tryggja það að móðir barns sem getið er með tæknifrjóvgun geti líka verið önnur en sú kona sem elur það. 

 

Ekki stendur til að spyrja þjóðina hvað henni finnst um þessa róttæku breytingu og enginn bregst við að því er virðist. Spurningin er, vilja menn að samfélag okkar breytist í þessa veruna?

 

Mínar tillögur í málinu eru þessar:   

1. Að bíða með frumvarpið en hefja samráð meðnágrannalönd okkar um hvaða skref séu heppileg í þessu efni. Bæði varðandi fulla staðgöngu innanlands og kaup á slíkri þjónustu erlendis. 

2. Í bili að leyfa hefðbundna staðgöngumæðrun til að koma á móts við þær konur/ pör sem geta nýtt sér hana. Hún er sjálfstakmarkandi og beinist einkum að því að hafa leyfi til að njóta hjálpar frá systur eða vinkonu sem er reyndar markmið frumvarpsins.

3. Að rýmka reglur fyrir venjulega ættleiðingu og setja í hana fjármuni svo hún geti reynst fleyrum raunverulegur valkostur.

4. Að banna fulla staðgöngumæðrun áfram.

5. Banna innflutning á börnum sem eru getin við fullastaðgöngumæðrun í hagnaðarskyni erlendis.

6. Hvetja alþjóðasamfélagið og WHO til að móta sameiginlega ásættanlega stefnu varðandi kaup Vesturlandabúa á fullri staðgöngumæðrun í þriðja heiminum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Mínar tillögur í málinu eru þessar:

1. Að bíða með frumvarpið en hefja samráð við nágrannalönd okkar ( innan Norðurlandaráðs) um hvaða skref séu heppileg bæði varðandi fulla staðgöngumæðrun innanlands og kaup á slíkri þjónustu erlendis.

2. Í bili að leyfa hefðbundna staðgöngumæðrun til að koma á móts við þær konur/ pör sem geta nýtt sér hana. Hún er sjálfstakmarkandi og beinist einkum að því að hafa leyfi til að njóta hjálpar frá systur eða vinkonu sem er reyndar markmið frumvarpsins.

3. Að rýmka reglur fyrir venjulega ættleiðingu og setja í hana fjármuni svo hún geti reynst fleyrum raunverulegur valkostur.

4. Að banna fulla staðgöngumæðrun áfram.

5. Banna innflutning á börnum sem eru getin við fulla staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni erlendis.

6. Hvetja alþjóðasamfélagið og WHO til að móta sameiginlega ásættanlega stefnu varðandi kaup Vesturlandabúa á fullri staðgöngumæðrun í þriðja heiminum. Líklegt má teljast að einhvers konar eftirlits sé þörf.

Guðmundur Pálsson, 19.2.2011 kl. 12:02

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Greinilegt að bloggari hefur ekki séð konu í örvæntingu reyna allar glasa- og tæknifrjóvgunaraðferðir í bókinni á sjálfri sér, án árangurs, og leggjast í þunglyndi yfir því að geta aldrei átt barn (nema með ættleiðingu, sem er oftar en ekki álitinn vera seinasti valkostur, ef þá að hann stendur yfirleitt opinn).

Geir Ágústsson, 19.2.2011 kl. 12:57

3 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Jú, það hef ég Geir. Þetta getur orðið mikið vandamál. En finnst þér þetta álitlegur kostur þegar tillit er tekið til annarra þátta?

Guðmundur Pálsson, 19.2.2011 kl. 13:03

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég skil að þetta er afskaplega vandmeð farið mál.  Tel samt að það hljóti að vera hægt að finna millileið fyrir fólk hér heima svo sem eins og í nr. 2.  ég sé heldur ekki hvernig er hægt að banna ættingja eða vinkonu einstaklings að ganga með barn fyrir hana.  Það hlýtur að geta fundist mórölsk leið sem allir geta sætt sig við.  Annars er hægt að misnota allt það er aldrei hægt að koma í veg fyrir misnotkun meðan mannkynið er ekki þroskaðara en það er því miður.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.2.2011 kl. 13:17

5 Smámynd: Björn Birgisson

Prýðilegur pistill. Vandaður og málefnalegur, ekkert í líkingu við skammarlegan hálfkæringinn í mér í gær!

PS. Bloggvini á ég enga. Takk samt fyrir boðið.

Björn Birgisson, 19.2.2011 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband