Leita í fréttum mbl.is

Hvers vegna er mikilvægt að valdir ráðherrar sitji ekki á Alþingi?

Við segjum að alþingi hafi löggjafarvaldið. Gott og vel. Og við viljum að löggjafarvald og framkvæmdavald séu aðskilin.  

Samt er það þannig í dag að stór hluti lagafrumvarpa eru beinlínis framleidd af ráðherrum sitjandi ríkisstjórnar, handhafa framkvæmdavaldsins.  Lögin eru hreinlega skrifuð í ráðuneyti viðkomandi ráðherra!

Undir flokksaga er svo frumvarpið samþykkt á Alþingi og þegar hitamál eru í gangi jafnvel undir hótun um að sitjandi stjórn falli ef menn fylgja ekki flokkslínunni.

Með mínum leikmannsaugum er þetta afbrigðilegt og setur ráðherra í einvaldshlutverk á meðan hann situr. Ráðherraræði hafa menn nefnt þetta og það er réttnefni því að þetta er litið annað en einræði ráðherra. 

Þetta er svona í dag og það verður svona á meðan ráðherrar sitja á Alþingi.

Þetta hefur einnig í för með sér að stjórnarandstaðan verður fullkomlega óvirk það er ekki hlustað á hana fremur en hún sé ekki til og Alþingi fær sýndarhlutverk og verður ekki lengur lýðræðisstofnun heldur andlaus afgreiðslustofnun.

Af þessum sökum tel ég vera æskilegt að ráðherrar séu utan þings eða segi af sér þingmennsku á meðan þeir eru ráðherrar. Víða erlendis er þetta vandamál leyst svona og ég vil reyna að vinna þessu fylgi og setja í stjórnarskrá.  


Til að maula á með morgunkaffinu: Um vernd einkalífs í finnsku stjórnarskránni.

10 . grein

1. Einkalíf manna, mannorð og friðhelgi heimilis skulu tryggð. Um vernd persónuupplýsinga gilda sérstök lög. 

2. Innihald persónulegra bréfa og símtala eru leynileg, sem og aðrar trúnaðarupplýsingar sem ganga á milli manna.

3. Með lögum má ákveða með hvaða aðgerðum er heimilt að rjúfa heimilisfrið og eru nauðsynlegar til þess að vernda grundvallarréttindi og frelsi manna og rannsókn á glæpum. Með lögum má einnig ákveða að skerða leynd trúnaðarupplýsinga sé það nauðsynlegt við rannsókn á brotum sem ógna öryggi einstaklingsins eða samfélagsins eða friðhelgi heimilisins, vegna réttarhalda og öryggiseftirlits eða við frelsissviptingu. 

 

Var þetta snúið? Já, það var það áreiðanlega. Enda hafa Finnar sterka nágranna og þurfa að verja sig t.d. gegn njósnum. Fáið ykkur aftur í bollann!  


Grýtingar eru bannaðar!

Ég sá frábæran frambjóðanda í dag sem ég ætla að kjósa. Það er Magnús Thoroddsen. Ef ég kysi einn mann kysi ég hann. Næstur kæmi Þorsteinn Gylfason og úr því ég er byrjaður að telja upp þá er þriðji maður á lista Mikael Karlsson heimspekingur.

Ég var að glugga í sænsku stjórnarskrána í dag og þá norsku. Írska liggur á borðinu ásamt þeirri japönsku. Suður-Afríkumenn hafa víst áhugaverða stjórnarskrá að sagt er, sem mætti skoða.

Stjórnarskráin þarf að innihalda grein um réttinn til að mótmæla. Hann gæti    t d. verði hluti af grein um félaga- og fundafrelsi.

Þar má standa:

1. Leyfilegt er að stofna til friðsamlegra mótmæla. Með friðsamlegum mótmælum er átt við þau sem ekki stofna lífi og heilsu manna í hættu eða valda eignatjóni.

Ég ætlaði að skrifa grýtingar eru bannaðar en hætti við.


Lifandi stjórnarskrá (living constitution) að hætti Bandríkjamanna?

Lifandi skrá:  

Stjórnarskráin bandaríska er lifandi skrá (living constitution) eins og Bandaríkjamenn segja stundum um sína skrá frá 1787 og eru stoltir af. Með lifandi skrá er ekki aðeins átt við að hún sé skiljanleg og höfði til fólksins heldur þróist hún einnig í takt við tímann. Höfuðgildin eru einföld, frelsi og réttlæti og varðandi stjórnskipunina sjálfa, að tempra ríkisvaldið.

Það væri óskandi að okkur takist það sama og reynir það mikið á samlyndi manna og víðsýni. Ég held að mestu skipti hvernig við hugsum hana þegar í byrjun og hugarfar stjórnarskrármanna verður að vera óbundið af eigin hagsmunum.

Mistökin gætu legið í þessu:

Stjórnarskráin má ekki festa einhvern hóp samfélagsins í skoðum sem annar hópur ákveður,  (þessi setning er frá Gunnari Hersveini ) en töluverð hætta er á því eftir áföll þjóðarinnar. Það væri afleitt og skaðlegt og hverjir gætu staðið fyrir því?

Einsýnir aktívistar, einstaklingar sem eingöngu vilja á þing til þess að skara eld að sínum hópi, kyni eða þjóðfélagsskoðun. Kjósum þá ekki, heldur þá sem hafa hag allra Íslendinga að leiðarljósi. 

Stjórnarskráin á að vera skír og sem styst, en ekki laus við túlkunarmöguleika. Hæstiréttur getur skorið úr um sérstök vandasöm túlkunaratriði varðandi stjórnarskrána eins og algengt er erlendis og það er betra en að hafa alla þætti niður njörfaða. Sama fyrirkomulag gæti hent í Íslandi.

En stjórnarskráin má ekki verða eins og skjal í rammgerðum peningaskáp í læstri hvelfingu heldur meira í líkingu við traust skip á hafi úti með okkur sjálf innanborðs.   


Hugleiðing um stjórnarskrá III Um trúfrelsi í finnsku stjórnarskránni. (Finlands grundlag)

Við þurfum að skoða gaumgæfilega allar stjórnarskrár grannþjóða okkar lið fyrir lið og valinn hópur þarf að samlesa allar þessar skrár. Þaðan kemur traustur grunnur fyrir vinnu stjórnlagaþings. 

Hér er kafli úr finnsku stjórnarskránni frá 1999 um trúfrelsi.  

 

Paragraf 11. Um trúfrelsi og rétt til sannfæringar.

1. Sérhver maður hefur frelsi til trúar og sannfæringar.

2. Með trúfrelsi er átt við réttinn til að játa trú, taka þátt í trúariðkun, tjá sig um trúarsannfæringu sína og tilheyra trúfélagi eða söfnuði. Engan má skilda gegn sannfæringu sinni til að að taka þátt í trúarathöfn.

 


Hugleiðingar um stjórnarskrá II

Finnska stjórnarskráin frá 1999. 

Hún er all ýtarleg sjá www.finlex.fi/sv/laki/ajantasa/1999/19990731

Úr finnsku stjórnarskránni

Paragraf 6 

Allir eru jafnir fyrir lögum.

Engin má njóta sérréttinda án viðtekinnar ástæðu vegna kyns, aldurs, uppruna, tungumáls, trúar, sannfæringar, viðhorfs, heilsubrests eða fötlunar eða neinu er varðar hans persónu.

Börnum skal mætt sem jafningjum og þau skulu hafa rétt til áhrifa eftir þroska í þeim málum sem varða þau sjálf.

Leitast skal eftir jafnrétti milli kynja í samfélagslegri þjónustu og atvinnulífi eftir því sem nánari lög kveða á um, sérstakega hvað varðar launakjör og ráðningarákvæði.

 


Hugleiðingar um stjórnarskrá I

Ný stjórnarskrá þarf að byggja á hefðinni. Byggja á þeirri stjórnarskrárhefð sem við þegar höfum, en sníða þarf af vankanta og herða á vissum hlutum sem sátt næst um.

Hún má með öðrum orðum ekki vera útópísk eða tæknileg, ögrandi eða öfgafull jafnvel þó það kunni að vera freistandi fyrir suma hópa að vinna að því.

1. Með útópíu á ég við að hún innihaldi hugmyndir sem ekki er hægt að fylgja eftir og ekki framkvæma. ( Fjallað er um þetta í leiðara Morgunblaðsins í dag ) Það er töluverð hætta á því að við setjum inn sykursætar friðar og jafnréttisútópíur í stjórnarskrá. Við skulum hafa þetta klassiskt og traust. Sæknum í smiðju annarra lýðræðisþjóða.

2. Að hún verði of tæknileg, full af tölum og formúlum td. við hönnun á nýju kosningakerfi, tilvísana í veraldarvefinn osfv eins og allir séu nettengdir. Það gengur ekki. Við getum skrifað viðbótarlög um kosningakerið sem stjórnarskráin vísar til. Varðandi kosningakerfið: standa má td.: Allir kosningabærir menn skulu hafa jafnan atkvæðisrétt. Meira þarf ekki.

3. Stjórnarskráin á að vera falleg skrá. Ég á við fallega orðuð og með sígildar traustar hugmyndir sem standast tímans tönn. Og menn þurfa að hugsa hana þannig frá byrjun. Við þurfum að gæta okkar á ögrandi eða öfgafullu orðalagi. Hún má td. ekki vera hægri- eða vinstrisinnuð, ekki heldur minna á  kvenréttindaskrá. Með öðru orðum: Stjórnarskrá má ekki ögra neinum hópi þjóðfélagsins. Hún er fyrir alla Íslendinga. 

Þetta gerir það að verkum að þekktir baráttumenn á sviði stjórnmálanna þó einarðir séu eru ekki endilega bestu fulltrúarnir á stjórnlagaþing. 


Stjórnarskrá sem endurspeglar vilja lýðræðisþjóðar. Guðmundur Pálsson læknir, 2391.

1912592549Hvers vegna á stjórnlagaþing?

Ég býð mig fram til stjórnlagaþings því ég vil stuðla að lýðfrjálsu og réttlátu samfélagi þar sem ríkir virðing og samvinna milli manna. Það er mikilvægt að allir fái notið sín og að við sköpum okkur leikreglur sem eru hófstilltar og almenn sátt ríkir um. 

Góð stjórnarskrá þarf að endurspegla þau grunngildi sem við viljum lifa eftir hér á landi.  Hún þarf að vera á eðlilegu og einföldu máli sem allir skilja.

Stjórnarskráin gæti byrjað á almennum orðum eins og:  Við Íslendingar setjum okkur þessa stjórnarskrá til að tryggja frelsi, lýðræði og jöfn réttindi allra í samfélaginu.

Aðalatriðið er að stjórnarskrá okkar endurspegli þau grunngildi sem við höfum Íslendingar. Við viljum réttlæti, traust, virðingu, lýðræði og lög sem stuðla að jöfnum rétti þegnanna. Við viljum eðlilegt skipulag, sem hvetur menn til góðra samskipta og heiðarleika.

Við þurfum ramma sem stuðlar að sátt milli manna svo þeir geti þroskast og látið drauma sína rætast: Menntað sig, unnið og séð fyrir sér, getið börn og fjölgað sér, unað glaðir við sitt og fundið merkinu í lífi sínu. Ræktað sína lífsskoðun eða trú og fundið fyrir öryggi. Ríkisvaldið þarf eðlilegar skorður og skipulag þess þarf að vera skiljanlegt venjulegum borgara. Stolt okkar sem íslendingar má koma fram í stjórnarskránni.

1. Ný stjórnarskrá þarf að byggja á hefðinni. Byggja á þeirri stjórnarskrárhefð sem við þegar höfum, en sníða þarf af vankanta og herða á vissum hlutum sem sátt næst um. Hún má með öðrum orðum ekki vera útópísk eða tæknileg, ögrandi eða öfgafull jafnvel þó það kunni að vera freistandi fyrir suma hópa að vinna að því.

2. Stjórnarskráin má ekki fjalla um smáatriði sem stjórnmálin á hverjum tíma eiga að takast á um. Hún þarf að vera rammi utan um ríkisvald og stjórnmálavald svo kosið vald fái skírar reglur um hvað sé heimilt og hvað ekki. Einnig gegnir ramminn því hlutverki að ríkisvaldið og stjórnmálaöflin geri ekki á hlut þegnanna. Stjónarskránni á því að vera erfitt að breyta.

3. Stjórnarskráin má ekki festa einhvern hóp samfélagsins (eða stétt) í skorðum sem annar hópur ákveður. Ekki er td. við hæfi að of mikið sé greint á um fjármagn og flæði þess. Lán, erlenda samninga osfv.  Það er mjög mikilvægt, en það reynir á víðsýni og samhug semjenda skrárinnar.

4. Gott er að hafa ákvæði, nokkrar setningar sem treysta aðskilnað þrískipts valds, löggjafarvalds , framkvæmdavalds og dómsvalds.

5. Kjördæmaskipun þarf að líta á og líklega er best að jafna kosningarétt um allt land.  Margir fletir eru á því máli og ég veit ekki hvað er best.

6. Ef hægt er að koma í fáeinum setningum inn ákvæði sem með einhverjum hætti treystir og bætir umræðuhefð og ákvarðanatöku okkar í stjórnmálum væri það ómetanlegt. Ég veit ekki hvað er best í þeim efnum en hlusta á tillögur.

7. Vald forsetans er mér ráðgáta. Ég veit ekki hvernig best er að hátta því. Hef einfaldlega ekki ákveðið mig og vill hlusta á spekingana í því efni.  

8. Það má ekki halla á neinn hóp í stjórnarskránni: Ekki eldri borgara eða börn. Ekki konur, veikt fólk, fatlað eða vanskapað, trúaða eða trúlausa. Enginn hópur má heldur ætla sér sérstaka meðferð eða forréttindi. Allir skulu vera jafnir að metum að lögum eins og hefð okkar býður.

9. Eignarréttur auðlinda og nýting hans á að tilheyra þjóðinni. Þó þarf að gæta sín og má ákvæðið ekki vera klaufalega orðað og hindra skynsamlega nýtingu auðlinda.

10. Kirkjan sjálfstæð gagnvart ríkinu. Best er að hafa ekkert nánar skrifað um hvernig því skuli háttað.

11. Stjórnarskráin á ekki að kveða á um það hvort og hvernig við tengjumst öðrum þjóðum. Hún má ekki herða á gömlu fullveldisskilgreiningunni þannig að ávallt verði hópur sem hrópi landráð í hvert skipti sem við eigum í samskipti við aðrar þjóðir um td. utanríkismál, varnarmál, efnahagsmál, menntamál osfv. Með öðrum orðin má stjórnarskráin ekki einangra okkur. Orðalag hennar má heldur ekki vera eins og vörður á leið inn í ESB. Hún á einfaldlega ekki að fjalla um þessi mál.

12. Gjarnan má vera ákvæði um að dauðarefsing sé ekki leyfð eins og í mörgum öðrum stjórnarskrám.

13. Það mætti hafa ákvæði um að vernda skuli lífið með öllum tiltækum ráðum frá getnaði til grafar. Ekki er heppilegt að hafa ákvæði um sérstakan rétt vissra hópa td. kvenna fremur en karla, stúlkna fremur en drengja osfv.  Ekki um réttindi hópa sem hafa sérstaka kynþarfir heldur einungis almennt orðalag um að allir skulu jafnir fyrir lögum.

14. Frumlegt væri að hafa einhvers staðar stutta setningu um að Íslendingar voni og treysti á manngæsku og hjálpsemi manna og treysti á kærleikann, það afl sem stýrir veröldinni. Finni nú einhver hið rétta orðalag sem nútímafólk getur sætt sig við! Ef við finnum réttu orðin verður stjórnarskrá okkar þekkt um allan heim nákvæmlega fyrir þetta. Ég veit að þetta síðast nefnda er óvenjuleg hugsun í stjórnarskrá en við erum líka óvenjuleg!


Fyrsta bloggfærsla

Fyrsta færsla. Að neðan má einnig koma skilaboðum til mín. Kveðja. Guðmundur.


« Fyrri síða

Höfundur

Guðmundur Pálsson
Guðmundur Pálsson

Heimilislæknir. Málefni og sanngjörn umræða. Á engann skal hallað. gudmundur.palsson@gmail.com

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband